Enn eitt sjalið

Fyrir rúmu ári tók ég þátt í leyniprjóni Romi Hill á ravelry. Það átti að nota tvo liti, ég valdi skærgulan og fallegan bláan. Það er soldið síðan ég kláraði en átti alltaf eftir að þvo og strekkja, það var ég að klára núna. Skærguli hætti samt að vera gulur því blái smitaði svo mikið og er núna grænn.

image

image

Uppskrift: Romi Hill leyniprjón 2015 (finn ekki nafnið né uppskriftina núna).
Prjónar 4,5
Garn: Madelinetosh merino light úr Handprjón. 

Auglýsingar

Veðráttuteppi 2016

Ég er að prjóna veðráttuteppi – athuga hitastigið kl. 12 á hádegi á Keflavíkurflugvelli og prjóna tvær umferðir fyrir hvern dag. Þetta verkefni tekur heilt ár. Ég er með 12 liti og hvítt á milli mánaða. Hver litur táknar því tvær gráður. Hitinn hefur verip mjög jafn í febrúar og því búið að vera frekar leiðigjarnt að prjóna þennan mánuð.

Hér er mynd af því sem komið er.

image

Ég er með kambgarn og prjóna númer 4,5.

Nýtt sjal

Ég hef ótrúlega gaman af leyniprjónum, að vita ekki fyrirfram hvernig verkið kemur til með að líta út. Í janúar byrjaði ég á leyniprjóni sem heitir Take it all eftir Lisa Hannes. Hönnuðurinn talaði um 9 liti og meirihlutinn af garninu eru afgangar sem ég átti eftir önnur verkefni.Ég reyndar gleymdi svo 9. litnum og þess vegna eru bleikur og gulur notaðir tvisvar.
Hér koma nokkrar myndir af ferlinu ☺

Garn: Yaku, milligrár úr Litlu prjónabúðinni. Átti það til hérna heima. 
Aukalitir: Fjara úr Handprjón (keypt fyrir þetta verkefni), Madelinetosh merino light, skærgulur, skærbleikur og blár – allt afgangar, Madelinetosh unicorn tails appelsínugulur/ferskjulitaður og túrkislitaður – keypt fyrir þetta verkefni, Baby merino soft úr Handprjón – keypt fyrir þetta verkefni. 
Prjónar númer 4.

image

image

image

image

Er sjúklega ánægð með það. Það er yfir 2 metrar á lengd en ekkert svo breitt og það hentar mér mjög vel.

The Doodler

Ég byrjaði á The Doodler í byrjun nóvember. Þetta var leyniprjón en af því að ég er svo lengi að prjóna var ég alltaf búin að sjá hjá hinum stelpunum hvað væri framundan. Vísbendingarnar voru fjórar og í þeirri þriðju var hægt að velja um að stækka uppskriftina. Ég gerði það og sá svo mjög eftir því þegar ég felldi af en það tók mig þrjú kvöld. Hér eru nokkrar myndir af ferlinu.


  Þarna skipti ég óvart um lit á röngunni en nennti ekki að rekja upp.

 Byrjuð að fella af en affellingin var eins og að prjóna snúru og tók mjög langan tíma.

 Í strekkingu á rúminu mínu.

Uppskrift: The Doodler eftir Stephen West
Prjónar: númer 4.
Garn: Madelinetosh merino light, 4 litir. Þrjá liti, bleika, gula og dökkbláa keypti ég fyrir leyniprjónið en ljósbláa átti ég hérna heima og það var skyndiákvörðun að nota hann með.

  Vettlingarnir mínir. Átti alltaf eftir að taka mynd af þeim og gerði það við minnismerki World Trade Center í desember.

Uppskrift: Rósafell úr Hlýjar hendur – ég lengdi uppskriftina um nokkrar umferðir.
Prjónar númer 3,0
Garn: Kambgarn.
Band heklað með svo þeir týnist örugglega ekki.

Nýtt ár

Ég skrifaði og birti 6 færslur í fyrra, sá það á yfirlitinu frá wordpress.com sem ég fékk í tölvupósti. Í heildina hef ég skrifað 52 færslur hérna inn og yfirleitt myndir með þeim öllum. Ég man nú ekki hversu mörg prjónaverkefni ég kláraði á árinu 2015 en þau voru ekkert voðalega mörg. Eitt af áramótaheitunum er að klára þau verkefni sem ég byrja á – er það ekki ágætis markmið? Ég byrjaði til dæmis á einu verkefni í gær, fannst það ekki takast nógu vel og rakti upp og byrjaði því á öðru verkefni. Á reyndar eftir að taka mynd af byrjuninni.

Í kringum jólin í fyrra birti einn vinur minn lista yfir bækur sem hann las á árinu. Mér fannst þetta svo sniðugt og ákvað að athuga hvort mér tækist að halda bókhald yfir lesnar bækur. Það tókst að mestu leyti, ég held samt að ég hafi gleymt 2-3 bókum. Sumar eru skráðar inn eftir að ég skilaði þeim á bókasafnið og því vantar blaðsíðufjöldann á þær. Ég skrái sem sagt niður titil, höfund, útgáfuár, hvenær ég byrja og klára bókina (ef ég man) og blaðsíðufjölda. Í fyrra las ég 25 bækur eftir 13 höfunda.

Ljónatemjarinn-Camilla Lackberg
Rósablaðaströndin-Dorothy Koomson
Friðlaus-Lee Child
Kóngar í ríki sínu-Hrafnhildur Valgarðsdóttir
Kóngar í ríki sínu og Krummi á skjánum-Hrafnhildur Valgarðsdóttir
Kóngar í ríki sínu og prinsessan Petra-Hrafnhildur Valgarðsdóttir
Bras og þras á Bunulæk
Sér grefur gröf-Yrsa Sigurðardóttir
Auðnin-Yrsa Sigurðardóttir
Rótlaus-Dorothy Koomson
Dóttir húshjálparinnar-Barbara Mutch
Kallaðu mig prinsessu-Sara Blædel
Aldrei framar frjáls-Sara Blædel
Hefndargyðjan-Sara Blædel
Dauðaengillinn-Sara Blædel
Gleymdu stúlkurnar-Sara Blædel
Einn plús einn-Jojo Moyes
Ég fremur en þú-Jojo Moyes
Síðasta orðsending elskhugans-Jojo Moyes
Næturóskin-Anne B. Ragde
Ég skal gera þig svo hamingjusaman-Anne B. Ragde
Karitas, án titils-Kristín Marja Baldursdóttir
Rosie verkefnið-Graeme Simsion
Utangarðsbörn-Kristina Ohlsson
Verndarenglar-Kristina Ohlsson
Þýska húsið-Arnaldur Indriðason

Þetta er mjög íslenskur listi, var að muna að ég las líka 2-3 enskar bækur í kyndilappinu í símanum mínum, þarf að fletta í gegnum það til að muna hvaða bækur ég las. Ein heitir allavega On thin ice, man ekki hvað hinar heita.Ég hafði gaman af að halda utan um þetta en þarf að taka mig á að færa inn jafnóðum. Miðað við hvað ég eyði miklum tíma í tölvunni ætti það ekki að vera mikið mál.

Nú ætla ég að halda áfram að prjóna endalausa sjalið mitt!

 

 

Skírnargjöf

Loksins get ég póstað mynd af þessari peysu sem ég prjónaði í sumar. Hún var ætluð í skírnargjöf en á skírnardaginn vantaði mig tölur á hana. Ég fékk tölur í Skartsmiðjunni hjá Halla frænda og Kötu. Svo tók um þrjá mánuði að skila peysunni af mér.

Uppskriftin heitir Birta og er frá Prjónakistunni. Ég notaði léttlopa og prjóna nr. 4,5. Peysan er prjónuð fram og til baka. 

   
   
Ég er mjög ánægð með hana og mun örugglega prjóna aftur eftir þessari uppskrift.

Vísbending 3

ég kláraði loksins vísbendingu númer 3 í leyniprjóninu. Nú er ég búin að nota skærgula litinn og á bara eftir að nota bláa. 

   
   

Það var svo kósý hjá honum Rúnari mínum í kvöld 🙂